Ársyfirlit 2020

Norðurá bs, urðunarstaðurinn Stekkjarvík

Á árinu 2020 var tekið á móti 26.073 tonni af úrgangi í urðunarstaðnum Stekkjarvík en árið áður var tekið á móti 26.081 tonni. Heildarúrgangsmagn sem barst til urðunar stóð því nánast í stað milli ára. Af því magni sem barst voru spænir bútar og kurlað timbur samtals 1.761 tonn sem er skilgreint sem yfirlagsefni fremur en urðað magn.

Nokkur breyting varð á samsetningu úrgangs sem barst til urðunar miðað við síðasta ár. Stærstu breyturnar voru að 44% aukning varð í magni húsgagna og grófs timburúrgangs sem jókst um 873 tonn og áðurnefnt magn kurlaðs timburs dróst saman um 2.160 tonn milli ára eða um 55%. Aukning varð í úrgangi úr sandföngum og olíuskiljum úr 187 tonnum í 840 tonn. Magn af sláturúrgangi og dýrahræum jókst um 594 tonn og var 4.268 tonn. Blandaður úrgangur frá fyrirtækjum dróst heldur saman og nam 8.703 tonnum og hafði minnkað um 597 tonn eða 6,4% milli ára. Frá verksmiðju á Bakka við Húsavík bárust 1.382 tonn af ketilryki og kolasalla og hafði minnkaði um 152 tonn milli ára.

Þjónustusvæði Norðurár bs. er orðið nánast allt Norðurland og nær frá Húnaþingi vestra og austur í Norðurþing. Samtals hefur verið tekið við rúmlega 182 þúsund tonnum í Stekkjarvík frá því urðun hófst þar 2011. Söfnun og brennsla á metangasi upp úr urðunarhólfinu hófst haustið 2018 og hefur gasi verið brennt þar síðan. Brennsla á gasi gekk vel og samtals var brennt um 220.000 rúmmetrum af metangasi á árinu. Metangasi sem verður m.a. til við rotnun er safnað í urðunarhólfinu og brennt. Ástæða þess er fyrst og fremst að það er mjög virk gróðurhúsalofttegund sem er lengi að eyðast í lofthjúpnum. Til skoðunar er hvort hægt sé að nýta gasið til brennslu á dýrahræum og áhættuvefjum frá sláturhúsum.

Á árinu var haldið áfram vinnu við endurnýjun starfsleyfis þar sem sótt er um stækkun heimildar til urðunar úr 21 þús. tonnum í 30 þús. tonn á ári. Lokið var við umhverfismat og skýrslugerð til Skipulagsstofnunar sem hefur málið til umsagnar. Væntingar standa til að starfsleyfisferlinu ljúki á árinu 2021.

Starfsmenn urðunarstaðarins eru almennt þrír og annast alla móttöku, skráningu og frágang þess úrgangs sem kom til urðunar auk viðhalds á vélum og tækjum. Vegna heimsfaraldurs Covid 19 var þeim hins vegar fjölgað tímabundið um þrjá og tvískipta starfsmannahópnum þannig að hvor hópur var á vakt eina viku í senn. Á milli vakta voru allir snertifletir sótthreinsaðir. Þessar ráðstafanir voru gerðar til að tryggja eins og mögulegt væri rekstraröryggi urðunarstaðarins í heimsfaraldrinum í ljósi þess að til urðunar berast efni frá heimilum og mismunandi starfsemi sem getur innihaldið smit. Allt gekk þetta vel og engin smit komu upp þannig að starfsemin var ótrufluð að öðru leyti vegna faraldursins.

 

Rekstrartekjur Norðurár bs árið 2020 námu 256,7 milljónum og jukust um 32,3 milljónir milli ára. Rekstrargjöld námu 85,6 milljónum, afskriftir voru 37 milljónir og fjármagnsliðir námu 27,8 milljónum. Hagnaður ársins varð því rúmar 106 milljónir sem var ráðstafað annarsvegar til framlags í svokallaðan „lokunarsjóð“ sem er ætlað það hlutverk að kosta frágang svæðsins þegar urðun lýkur og hins vegar í sjóð til fjárfestinga á vegum félagsins.

 

Í stjórn félagsins eru; Magnús B. Jónsson, Einar E. Einarsson, Sveinn Úlfarsson og Snorri Finnlaugsson sem áheyrnarfulltrúi sveitarfélaga við Eyjafjörð

Magnús B. Jónsson form. stjórnar.